Ávísun á reglubundna hreyfingu bætir heilsu og líðan

Hreyfing er mikilvægur hluti af meðferð við mörgum algengum sjúkdómum svo sem sykursýki, háþrýstingi, þunglyndi, kvíða, verkjum, ofþyngd eða öðrum lífstílstengdum vandamálum.

Telji læknar eða aðrir heilbrigðisstarfsmenn að hreyfing ætti að vera hluti af meðferð við þínum sjúkdómi er þér vísað til hreyfistjóra sem er sjúkraþjálfari með aðsetur á heilsugæslunni þinni. Þú getur einnig haft frumkvæði að því að óska eftir tilvísun á hreyfiseðil.

Ávísun í hreyfiseðill felur í sér einnar klukkustundar viðtalstíma hjá sjúkraþjálfara þar sem farið er í gegnum heilsufarssögu, sjúkdómseinkenni og hreyfivenjur. Sett eru upp markmið og hreyfiáætlun út frá þinni getu að teknu tilliti til ákveðinna heilsufarsmælinga, sjúkdóma og heilsuvanda. Út frá þessu færðu ráðleggingar um tegund hreyfingar, magn, ákefð og tímalengd.

Þú skráir hreyfingu þína rafrænt eða símleiðis og færð hvatningu og aðhald með tölvupóstum eða símtölum. Á þriggja mánaða fresti fær læknir / heilbrigðisstarfsmaður greinargerð frá hreyfistjóra þar sem mat er lagt á framvindu og árangur meðferðarinnar. Meðferð getur varað í eitt ár allt eftir óskum þínum og er þér að kostnaðarlausu að undanskildu viðtalinu þar sem greitt er komugjald.

Tölfræðiupplýsingar